fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Viðspyrna fyrir Suðurnes

Starfshópur um stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum mun innan tíðar skila niðurstöðum að viðspyrnu fyrir Suðurnes en markmið hans var að greina hugsanlegar hindranir og aðrar áskoranir við vöxt svæðisins, forgangsraða aðgerðum og móta og kynna viðbragðsáætlun fyrir Suðurnes.

Vegna breyttrar stöðu í þjóðfélaginu tók starfshópurinn jafnframt tillit til þess hvernig bregðast megi við auknu atvinnuleysi á svæðinu vegna afleiðingar Covid-19.

Starfshópurinn var skipaður í framhaldi af af samþykkt ríkisstjórnar Íslands þann 23. ágúst sl. um að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis nr. 42/149 um stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ráðherra kallaði eftir tilnefningum í lok september og skipaði starfshópinn í byrjun nóvember 2019. Sérfræðingur á skrifstofu sveitarstjórnar- og byggðamála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu stýrði vinnu hópsins og Byggðastofnun liðsinnti við greiningar og framkvæmd verkefnisins.

Starfshópurinn er skipaður eftirtöldum fulltrúum:

  • Sigtryggur Magnason, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, formaður
  • Anna Katrín Einarsdóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
  • Berglind Kristinsdóttir, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum
  • Fannar Jónasson, Grindavíkurbæ
  • Hanna Dóra Hólm Másdóttir, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti
  • Ingþór Guðmundsson, Sveitarfélaginu Vogum
  • Kjartan Már Kjartansson, Reykjanesbæ
  • Laufey Kristín Skúladóttir, Byggðastofnun
  • Magnús Stefánsson, Suðurnesjabæ
  • Pétur Berg Matthíasson, forsætisráðuneyti
  • Ragnheiður Þórisdóttir, heilbrigðisráðuneyti
  • Steinunn Sigvaldadóttir, fjármála- og efnahagsráðuneyti
  • Þórarinn V. Sólmundarson, mennta- og menningarmálaráðuneyti

Auknir fjármunir settir í markaðsstarf svæðisins og opnun frumkvöðlaseturs

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) vann tillögur að því hvernig hægt væri að efla innviði á Suðurnesjum í kjölfar óveðursins sem geysaði í upphafi árs. Einnig skilaði SSS inn tillögum að því hvernig hægt væri að bregðst við auknu atvinnuleysi á svæðinu vegna afleiðinga Covid-19.

Að sögn Berglindar Kristinsdóttur framkvæmdastjóra SSS er vonast til þess að eitthvað af þeim tillögum nái fram að ganga.

SSS hefur hafið vinnu við að kortleggja verkefni sem ríki og sveitarfélög eru að fara í á þessu ári sem og næstu árum, með það að markmiði að greina fjölda og tegund starfa sem skapast í kringum þessi verkefni. Þá verða auknir fjármunir settir í markaðsstarf fyrir svæðið sem unni verður af Markaðsstofu Reykjaness í tengslum við átak í ferðaþjónustu innanlands. Þá er unnið að opnun frumkvöðlaseturs í Keili en það er samstarfsverkefni Eignarhaldsfélags Suðurnesja og S.S.S.  Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja vinnur nú að gerð rafrænna námskeiða fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki og unnin verða kennslumyndbönd fyrir nýsköpun og þróun til þess að koma til móts við þennan hóp sem ekki getur mætt til okkar í ráðgjöf og handleiðslu eins og staðan er í dag.

Að sögn Berglindar er SSS og Heklan í góðu samstarfi við Íslandsstofu og eru fyrirtæki kvött til að setja sig í samband við starfsmenn Heklunnar þurfi þau á aðstoð að halda varðandi viðskiptatengingar á opnum á markaði eða ef þau vilja finna nýja markaði fyrir sínar vörur eða þjónustu.

Hér má sjá nánari upplýsingar um þjónustu Heklunnar og starfsmenn sem hægt er að leita til.

Suðurnes fékk úthlutað 28 mkr í Sóknaráætlun Suðurnesja og verður þeim fjármunum varið í verkefni sem eru atvinnuskapandi eða stuðla að nýsköpun. Hver landshluti skal leggja áherslu á þær atvinnugreinar sem orðið hafa fyrir hvað mestum neikvæðum afleiðingum Covid 19. Einnig hefur SSS verið veitt heimild til að endurúthluta þeim fjármunum sem eftir eru úr Sóknaráætlun Suðurnesja 2015-2019 í fyrrnefnd verkefni. Tillaga á þessum verkefnum verður lögð fyrir á næsta stjórnarfundi SSS. Þá mun Reykjanes Geopark einnig spila hlutverk í viðspyrnu fyrir svæðið sem ríkisstjórnin hefur kynnt.