fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Sköpunargleði og kraftur á Heklugosi

Það ríkti sköpunargleði og kraftur á Heklugosi sem fram fór í Eldey þróunarsetri í gær en um 500 gestir kynntu sér fjölbreytt verkefni hönnuða á Suðurnesjum.Alls tóku 40 hönnuðir þátt í sýningunni, þar af sprotafyrirtæki í Eldey, og hönnun 9 fatahönnuða var sýnd á glæsilegri tískusýningu í einni af stóru smiðjunum í húsinu. Vinnusmiðjur hönnuða voru opnar og gestir kynntu sér hönnun um allt hús en að auki kynntu Bláa lónið, Sif Cosmetics og Alkemistinn vörur sínar.Alls starfa nú 18 sprotafyrirtæki í Eldey, flesti á sviði hönnunar, og starfsmenn í húsinu eru 30 talsins. Mikil eftirspurn hópa hefur verið í heimsóknir í Eldey þar sem skoðaðar eru vinnusmiðjur hönnuða og að auki hafa Reykjavík Concierge hafið skiplagðar ferðir með ferðamenn til hönnuða á Suðurnesjum þannig að gerjunin er mikil í þessum geira og greinilegt að áhugi á hönnun er mikill.Afhentir voru styrkir Menningarráðs Suðurnesja fyrir samtals 32, 7 milljónir króna sem er mikil hvatning fyrir þá sem starfa í skapandi greinum en það er sú atvinnugrein sem er í hvað örustum vexti í dag.
Frú Dorrit Moussaieff var heiðursgestur kvöldsins en bakhjarlar voru Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Kadeco þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Íslandsbanki og ÍAV. Margir tóku þátt og gáfu vinnu sína eða studdu framtakið á einhvern hátt enda fannst mönnum mikilvægt að segja jákvæðar fréttir af Suðurnesjum þar sem sköpunarkrafturinn er mikill.
Heklugos á Suðurnesjum var samstarfsverkefni Eldeyjar, Menningarráðs Suðurnesja og SKASS (Samtök kraftmikilla, alvöru, skapandi Suðurnesjakvenna) en SKASS hefur nú fengið aðstöðu í Eldey.