Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Fjármögnun og styrkir

Heklan veitir  upplýsingar og leiðsögn fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Þar er á einum stað hægt að leita aðstoðar við það sem við kemur viðskiptahugmyndum og almennum rekstri fyrirtækja.

Veittar eru upplýsingar um styrki og styrkjamöguleika sem standa einstaklingum, fyrirtækjum og rannsóknaraðilum til boða.

Stuðningur við frumkvöðla og fyrirtæki er fjölbreyttur og á hendi margra aðila. Hér má sjá yfirlit yfir helstu sjóði stoðkerfisins.

Uppbyggingarsjóður
Uppbyggingarsjóður er samkeppnissjóður og hlutverk hans er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Suðurnesjum, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun landshlutans.

Sjóðurinn styrkir að jafnaði ekki meira en 50% af heildarkostnaði verkefna.

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja auglýsir eftir styrkhæfum verkefnum árlega.

Lóa nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina
Markmið Lóu er að auka við nýsköpun á landsbyggðinni.

Styrkjunum er úthlutað til nýsköpunarverkefna utan höfuðborgarsvæðisins til árs í senn. Hvert verkefni getur hlotið að hámarki 20 milljóna króna styrk.

Rannís 
Hlutverk RANNÍS er m.a. að styrkja stoðir íslenskrar menningar og atvinnulífs með því að stuðla að markvissu vísindastarfi, tækniþróun og nýsköpun. Í vörslu RANNÍS eru m.a.:

Tækniþróunarsjóður stuðlar að því að bæta samkeppnisstöðu atvinnulífsins með því að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar og nýsköpunar. Sjóðurinn auglýsir umsóknarfresti um framlög og umsækjendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki, rannsóknarstofnanir og háskólar.

Rannsóknasjóður Úthlutanir úr Rannsóknasjóði fara að mestum hluta til að greiða laun og langstærstur hluti þeirra sem þiggja laun úr verkefnum sem styrkt eru af Rannsóknasjóði eru nemendur í doktors- eða meistaranámi.

Nýsköpunarsjóður námsmanna Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni.

Innviðasjóður Hlutverk Innviðasjóðs er að byggja upp rannsóknarinnviði á Íslandi. Innviðasjóður veitir styrki til kaupa á tækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði og öðrum þeim búnaði sem telst mikilvægur fyrir framfarir í rannsóknum.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum.

  • Hlutafjárþátttaka Meginstarfsemi Nýsköpunarsjóðs felst í kaupum á hlutafé í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum en fyrir framlag sjóðsins eignast hann hlutdeild í fyrirtækinu í samræmi við það verðmat sem eigendur viðskiptahugmyndarinnar og Nýsköpunarsjóður koma sér saman um.
  • Lán með breytirétti
    Nýsköpunarsjóður getur veitt nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum lán með breytirétti í hlutafé.
    Lánin eru veitt til áhugaverðra fjárfestingakosta, þar sem ekki er talið tímabært að leggja fram hlutafé í viðskiptahugmyndina og einnig til fyrirtækja sem sjóðurinn hefur þegar fjárfest í og vill ekki auka hlut sinn í félaginu að svo stöddu.
  • Frumtak
    Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frumtaki er ætlað að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru komin af klakstigi og er áskilið að fyrir liggi ítarlegar viðskiptaáætlanir. Frumtaki er heimilt að fjárfesta erlendis að því marki sem nauðsynlegt er vegna útrásar eða markaðssóknar íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði, ekki síst þegar möguleiki er á sameiningu eða samruna við fyrirtæki í eigu Frumtaks.