fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Atvinnutekjur á Suðurnesjum jukust um 53%

Atvinnutekjur á Suðurnesjum jukust um 32,5 milljarða kr. frá árinu 2008 eða um tæp 53% sem er langt yfir landsmeðaltali sem var ríflega 24%.

Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur 2008-2018 eftir atvinnugreinum og landshlutum.

Heildaratvinnutekjur á Suðurnesjum á árinu 2018 námu 94 milljörðum kr. sem var aukning um 8,6 milljarða kr. frá fyrra ári sem er aukning upp á 10%.

Meðalatvinnutekjur á Suðurnesjum voru heldur lægri en landsmeðaltal. Reykjanesbær og Grindavík eru við meðaltal svæðisins á meðan Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar voru nokkru neðar. Hlutfall atvinnutekna kvenna á Suðurnesjum var 36% á árinu 2018 nema í Grindavík þar sem hlutfallið var aðeins 33%.

Langstærsta atvinnugreinin á Suðurnesjum mæld í atvinnutekjum var flutningar og geymsla og þar á eftir kemur leiga og sérhæfð þjónusta en báðar greinarnar byggjast að miklu leyti á ferðaþjónustu og þar af leiðandi á starfsemi sem tengist Keflavíkurflugvelli. Þetta voru einnig þær greinar sem mestur vöxtur hefur verið í undanfarin ár. Grindavík er undantekning á svæðinu en þar eru fiskveiðar og fiskvinnsla langstærstu greinarnar.