fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

733. stjórnarfundur SSS 08. ágúst 2018

Árið 2018, er fundur haldinn í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum miðvikudaginn 8. ágúst, kl. 8:00 á skrifstofu S.S.S., Skógarbraut 945, Reykjanesbæ.

Mætt eru: Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Einar Jón Pálsson, Guðmundur Pálsson, Ólafur Þór Ólafsson, Ingþór Guðmundsson og Berglind Kristinsdóttir sem
jafnframt ritaði fundargerð.

1. Persónuverndarfulltrúi.

a) Bréf dags. 9. júlí 2018, frá Kjartani M. Kjartanssyni f.h. Reykjanesbæjar. Efni: Boð um kaup á þjónustu persónuverndarfulltrúa Reykjanesbæjar.

b) Drög að samningi um kaup á þjónustu af Reykjanesbæ.

c) Tölvupóstur dags. 21.06.2018 frá Fannari Jónassyni f.h. Grindavíkurbæjar. Efni: Afgreiðsla á erindi frá S.S.S.

Fallið hefur verið frá þeirri hugmynd að vista persónufulltrúa hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum vegna breyttra forsenda af hálfu Reykjanesbæjar.

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum samþykkir að ganga til samninga við Reykjanesbæ um kaup á þjónustu um starf persónuverndarfulltrúa. Framkvæmastjóra falið að undirrita samninginn fyrir hönd stjórnar.

2. Tölvupóstur dags. 11.júlí frá Fannari Jónassyni, f.h. Grindavíkurbæjar. Efni: Tilnefning fulltrúa í heilbrigðisnefnd.

Erindið rætt á fundinum og stjórn S.S.S. tekur undir þau sjónarmið að Reykjanesbær fái tvo fulltrúa í stjórn Heilbrigðisnefndar Suðurnesja sem og að nefndin kjósi sér formann á fyrsta fundi nefndarinnar. Stjórn S.S.S. telur rétt að fulltrúar sveitarfélaganna og framkvæmdastjóri H.E.S. fundi til að fara yfir málið.

3. Bréf dags. 20. júlí frá Karli Björnssyni, f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga. Efni: Boðun XXXII. Landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Erindið lagt fram. Stjórn S.S.S. telur mikilvægt að Suðurnesin eigi fulltrúa í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og hvetur uppstillingarnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga til að taka tillit til þess.

4. Drög að starfsreglum stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Stjórn S.S.S. samþykkir starfsreglur stjórnar.

5. Almenningssamgöngur – Niðurstaða matsgerðar í máli nr. E-3411/2015.

Niðurstaða matsgerðar liggur fyrir í máli Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Íslenska ríkisins. Stjórn S.S.S. felur framkvæmdastjóra að vinna málið áfram í samstarfi við lögmann S.S.S. 

6. Undirbúningur aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum verður haldinn daganna 7.-8. september. Fundur hefst kl. 14:30 með skráningu en fundur hefst formlega kl. 15:00. Fundað verður í Grindvík að þessu sinni. Stjórn S.S.S. leggur til að unnið verði að stefnumótun fyrir S.S.S. fyrir næstu 4 árin á fundinum. Framkvæmdastjóra falið að vinna að dagskrá fram að næsta fundi stjórnar.

7. Önnur mál.

Stjórn S.S.S. leggur til að gerðar verði breytingar á ráðningarsamningi framkvæmdastjóra þess efnis að breytingar á launum verði samkvæmt launavísitölu starfsmanna sveitarfélaga. Formanni falið að vinna á málinu fram að næsta á næsta fundi.

Framkvæmdastjóra falið að óska eftir upplýsingum um nefndarlaun samrekinna stofnanna sveitarfélaganna og leggja fram á næsta fundi stjórnar.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn miðvikudaginn 22. ágúst kl. 17:00.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:05.