fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

45. aðalfundur S.S.S. 1.-2. október 2021

Rétt til fundarsetu hafa: kjörnir bæjarfulltrúar, framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaga og gestir.

            Skráning fulltrúa afhending gagna.

            Fundinn sóttu 28 sveitarstjórnarmenn aðal- og varamenn.

            Reykjanesbær 10 fulltrúar

            Grindavík 5 fulltrúar

            Suðurnesjabær 6 fulltrúar

            Vogar 7 fulltrúar

            Gestir og frummælendur á fundinum voru:

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæ, Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Vogum, Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæ, Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavík, Jón Guðlaugsson, Brunavarnir Suðurnesja, Guðni Þór Gunnarsson, Íslenskir endurskoðendur, Guðlaug Pálsdóttir FS, Ólafur Jón Arnbjörnsson, Fisktækniskólinn, Sigurgestur Guðlaugsson, Reykjanesbæ, Aldís Hafsteinsdóttir, Samband íslenskra sveitarfélaga, Hilmar Bragi Bárðarson, VF, Magnús H. Guðjónsson, HES, Sigurður Hannesson, Samtök Iðnaðarins, Sveinn Björnsson, Reykjanesbæ, Frímann Gunnarsson, skemmtikraftur, Oddný G. Harðardóttir, Alþingi, Hólmfríður Stefánsdóttir Stafrænt Ísland.

  • Fundarsetning .

Formaður stjórnar SSS  Jóhann Friðrik Friðrisson  setti fundinn og kynnti tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara. Lögð fram tillaga um Friðjón Einarsson og Margréti Sanders sem fundarstjóra. Jafnframt var lögð fram tillaga varðandi fundarritara um þau Kjartan Má Kjartansson og Díönu Hilmarsdóttur.  Tillögurnar voru báðar samþykktar. Björk Guðjónsdóttir er fundarskrifari.

Friðjón tók við fundarstjórn

  • Ávarp ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Ráðherra boðaði forföll.
  • Ávarp frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Aldís Hafsteinsdóttir formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Stjórnin sendir sínar áherslur við gerð nýs stjórnarsáttmála til þingmanna sem eru að vinna að meirihlutamyndun. Hún fór yfir áherslur sambandsins sem eru um skipulagsvaldið, tekjustofna sveitarfélaga, fullfjármagnaða nærþjónustu og atvinnu- og byggðamál. Aldís ræddi áhrif covid á starfsemi sambandsins, störf án staðsetningar sem komu í kjölfar heimsfaraldurs og áherslur sambandsins á stafræna framþróun. Aldís fór yfir fjármál sveitarfélaga, rekstur þeirra á þessu ári og framkvæmdir sveitarfélaga á árinu. Aldís fjallaði um mjög mörg mál sem varða sveitarfélög almennt og  sveitarfélög á Suðurnesjum sérstaklega. Nú eru að hefjast viðræður um kjaramál við kennarafélögin og þrjú BHM félög. Hún fjallaði um styttingu vinnutímans fyrir sveitarfélögin og áhrif þeirra aðgerða. Sambandið hefur haft áhuga á velferð aldraðra og heilsueflingu aldraðra en telur að kostnaðurinn eigi ekki að falla allur á sveitarfélögin, ríkið þurfi að koma með fjármagn. Hún ræddi loftlagsmál og heimsmarkmiðin og telur að sveitarfélögin geta ekki setið hjá hvað þessa málaflokka varðar. Áskoranir og verkefni sem eru framundan, eru eðlilega mörg og stór sem Aldís fór yfir. Hún talaði um landsþingið 2022 og breytingar á kosningafyrirkomulagi varðandi formennsku í stjórn sambandsins. Að lokum fór Aldís yfir viðburði sambandsins á næstunni.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku, Kjartan Már Kjartansson, Guðbrandur Einarsson, Margrét Sanders og  Fríða Stefánsdóttir.

Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga svaraði fyrirspurnum fundarmanna.

  • Skýrsla stjórnar.

Formaður stjórnar Jóhann Friðrik Friðriksson flutti skýrslu stjórnar.

Kæru aðalfundargestir.

Fyrir hönd stjórnar býð ég ykkur hjartanlega velkomin á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem að þessu sinni er haldinn hér í húsakynnum Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Stjórn Sambandsins hefur á undanförnu starfsári unnið þétt saman að málefnum Suðurnesja. Eins og allir vita hefur Covid 19 einkennt líf okkar en sem betur fer hafði það takmörkuð áhrif á vinnu stjórnar, þökk sé starfsfólki SSS og möguleikunum á fjarfundum. Mikill samhljómur hefur verið um flest mál á starfsárinu og árangurinn verið góður. Eftir fall WOW air og heimsfaraldurinn er loks að birta til og atvinnuleysi fer nú hratt minnkandi á svæðinu. Það er mín von að áframhaldandi samvinna sveitarfélaganna á Suðurnesjum, atvinnulífsins og ríkisvaldsins skili okkur kröftugri viðspyrnu hér á Suðurnesjum á næstu misserum.

Það er hlutverk SSS að gæta hagsmuna aðildarsveitarfélaganna í hvívetna og koma fram sem ein heild í sameiginlegum málum gagnvart ríkisvaldinu. Stjórn átti samkvæmt venju fundi með þingmönnum og nefndum á vegum alþingis auk þess sem sértaklega var fundað með ríkisstjórn Íslands í ljósi þeirrar stöðu sem við öll þekkjum. Hlustað var á kall eftir stuðningi í verki og náðist verulegur árangur í þeirri málaleitan. Fjárframlag til HSS var aukið á fjárlögum um 200 milljónir króna auk þess sem ákvörðun var tekin um að hefja byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar á svæðinu. Það er von mín að sú framkvæmd geti hafist á næsta ári. Suðurnesjamenn eiga rétt eins og aðrir íbúar landsins að njóta bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma. Ef mið er tekið af fólksfjölda ættu hér að vera þrjár heilsugæslustöðvar auk þess sem mikill skortur er á heimilislæknaþjónustu. Baráttu okkar er því hvergi nærri lokið þó vert sé að þakka fyrir hvert skref í rétta átt.

Lengi hefur það verið baráttumál á Suðurnesjum að fjölga atvinnutækifærum. Sjaldan hefur sú barátta verið eins mikilvæg eins og nú. Sama gildir um áframhaldandi uppbyggingu í menntamálum.

Það er fagnaðarefni að Menntanet á Suðurnesjum hafi tekið til starfa en ríkisstjórn Íslands ákvað að leggja 300 milljónir í verkefnið til næstu þriggja ára. Það er ánægjulegt að hreyfing sé komin á þær fjárveitingar þar sem þörfin er klárlega til staðar. Það er mín von að samstarf um Menntanet fjölgi menntunarúrræðum á svæðinu og verði þáttur í að hækka enn frekar menntunarstig svæðisins. Ný viðbygging við Fjölbrautaskóla Suðurnesja var vígð fyrr í þessum mánuði við glæsilega athöfn. Framlag ríkisins til viðbyggingar nam 124 milljónum króna og greiddu sveitarfélögin á Suðurnesjum í hlutfalli við stærð rúmlega 40% af kostnaði. Viðbyggingin bætir aðstöðu nemenda svo um munar en eins og fram kom við vígsluna er ekki seinna vænna að horfa til frekari stækkunar skólans í ljósi ásóknar og fólksfjölgunar á Suðurnesjum.

Í byrjun árs lauk þeim breytingum sem gerðar voru á eignarhaldi og fjárhagslegri endurskipulagningu Keilis þar sem ríki og sveitarfélög eignuðust skólann með það að markmiði að tryggja grundvöll hans til framtíðar. Aldrei hafa fleiri nemendur stundað nám við Keili og ljóst að starfsemin skiptir svæðið og landið allt miklu máli.

Ríkisstjórn Íslands veitti 250 milljón króna styrk til ýmissa verkefna á svæðinu vegna Covid 19 niðursveiflunnar en verkefnin eru afrakstur starfshóps sem upphaflega var settur á laggirnar til þess að bregðast við mikilli fólksfjölgun á Suðurnesjum. Í ljósi Covid var hlutverki hópsins snarlega breytt í ljósi stöðunnar. Mikilvægt er að þakka fyrir gott samstarf við ríkisvaldið varðandi þau verkefni sem um ræðir og væntum við mikils af þeirri vinnu. Einnig kom til aukaframlag vegna sóknaráætlunar sem mun eflaust nýtast vel hér á svæðinu.

Ýmis önnur verkefni hafa verið sett af stað til uppbyggingar og atvinnusköpunar á starfsárinu og má þar nefna hugmyndir að uppbyggingu skipaklasa sem leitt er áfram af Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Ráðgert er að byggja þar nýjan slipp þar sem hægt er að taka á móti mun stærri skipum. Hugmyndirnar kalla á töluverðar framkvæmdir við Njarðvíkurhöfn og er mótframlag ríkisins að upphæð 350 milljónir króna tryggt, gangi áætlanir eftir. Breytingarnar munu þá einnig opna fyrir þann möguleika að skipastóll Landhelgisgæslunnar verði staðsettur í Njarðvíkurhöfn sé vilji til þess.

Stjórn SSS ákvað að gera fýsileikakönnun á Grænum iðngarði á Suðurnesjum í kjölfar mikillar vinnu sem fram fór hjá Suðurnesjavettvangi á árinu og var kynnt í Stapa í vor. Samkvæmt skýrslunni eru Suðurnesin vel í stakk búinn til þess að taka virkan þátt í hringrásarhagkerfinu og verður fróðlegt að sjá hvernig sú vegferð þróast.

Kæru vinir.

Ef það var ekki nóg fyrir okkur Suðurnesjamenn að glíma við heimsfaraldurinn þá ákvað móðir náttúra að nú væri rétti tíminn fyrir eldgos á Reykjanesi. Eldgos hófst við Fagradalsfjall þann 19. mars og hefur staðið nær sleitulaust síðan. Eldgosið er að sjálfsögðu staðsett innan Reykjanes Geopark og eru jákvæðu hliðar þess sú gríðarlega landkynning sem gosið hefur haft í för með sér. Sem von er var hugur okkar Suðurnesjamanna hjá Grindvíkingum í aðdraganda gossins enda skjálftavirkni mikil og óvissan sömuleiðis. Mikilvægt er að SSS verði ávallt sameiginlegur vettvangur sveitarfélaga á Suðurnesjum, ekki einvörðungu til hagsmunagæslu heldur ekki síður til samstöðu og samvinnu við aðstæður sem þessar.

Nú standa yfir breytingar á Markaðsstofu Reykjaness og verður hún lögð niður og við tekur Áfangastaðastofa Reykjaness. Markmiðið með þessum breytingum er að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi á starfssvæðinu. Mikilvægt er að Áfangastaðastofan búi yfir sérhæfðum mannauði, þekkingu og reynslu til að sinna hlutverki sínu. Eitt af verkefnum áfangastaðastofu er að leggja fram áfangastaðaáætlun fyrir svæðið í heild og vera samstarfsvettvangur sveitarfélaga, ríkis og atvinnulífs. Vænti ég mikils af þessum breytingum og tel þær vænlegar til árangurs.

Kæru fundarmenn.

Sex ár eru nú liðin frá því að Reykjanes Geopark fékk formlega UNESCO vottun. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum eru stofnaðilar að jarðvangnum auk HS Orku, Bláa Lónsins, Þekkingarseturs Suðurnesja og Keilis. Möguleikar Geoparksins hafa sjaldan verið meiri, bæði í móttöku ferðamanna, fræðslustarfsemi og samstarfsverkefnum hérlendis og erlendis svo eitthvað sé nefnt. Það er mikilvægt að nýta það tækifæri.

Kæru aðalfundargestir

Ég vil ljúka skýrslu stjórnar með því að hvetja ykkur öll til dáða. Samstarfið á Suðurnesjum er traust. Það byggir á sameiginlegum vilja okkar til þess að efla svæðið sem við búum á með virðingu og samkennd að leiðarljósi. Samstarf sveitarfélaganna er mikilvægt fyrir íbúana. Flokkadrættir eða hreppapólitík eiga þar ekki við. Það hefur verið mín skoðun að enn frekara samstarf á vettvangi SSS geti styrkt Suðurnesin á öllum sviðum enda samvinna forsenda framfara.

Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka Berglindi og hennar frábæra starfsfólki fyrir samstarfið og þeirra framlag á starfsárinu. Ég þakka fyrir viðburðarríkt ár í formennsku og óska Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum velfarnaðar um ókomin ár.

Jóhann Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

  • Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2020.

Guðni Gunnarsson fyrir hönd Íslenskra endurskoðenda.

Í áliti endurskoðanda kemur fram að ársreikningur gefi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu 2020, efnahag hans 31. desember 2020, breytingu á handbæru fé á árinu 2020 í samræmi við lög um ársreikninga og að skýrsla stjórnar hafi að geyma þær upplýsingar sem þar ber að veita í samræmi við lög og reglur um ársreikninga og koma ekki fram í skýringum.

  • Umræður um skýrslu stjórnar.

Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikninga.

Til máls tóku Margrét Sanders, Berglind Kristinsdóttir og Guðmundur Pálsson.

Fundarstjóri bar upp reikninga sambandsins og voru þeir samþykktir samhljóða.

  • Ársskýrslur SSS/Heklunnar og Áfangastaðastofu Reykjaness.
  • Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum – Heklan – Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri SSS og Heklunnar kynnti skýrsluna.
  • Áfangastaðastofa Reykjaness – Þuríður H. Aradóttir Braun, verkefnastjóri kynnti skýrsluna. 
  • Umræður um ársskýrslur SSS/Heklunnar og Áfangastaðastofu Reykjaness.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Einar Jón Pálsson, Guðbrandur Einarsson og Berglind Kristinsdóttir.

  • Tillögur og ályktanir lagðar fram.

Tillögur og ályktanir lagðar fram, en afgreiddar síðar á fundinum.

Kaffihlé.

  • Kynning á Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja – Magnús H. Guðjónsson framkvæmdastjóri kynnir.

Magnús fór yfir lögboðin verkefni embættisins og jafnframt kynnti hann  önnur þau verkefni sem eru á borði Heilbrigðiseftirlitsins.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Einar Jón Pálsson.

Fundi frestað kl. 18.10.

Laugardagurinn 2. október.

  • Vá heimurinn er að breytast og ég hef allt í einu miklu fleiri tækifæri! Tryggvi Hjaltason – CCP Games.

Ísland er að breytast hratt þessi misserin fyrir alla. Hann sagði að stærsta aukning af öllum útgjaldaliðum núverandi ríkisstjórnar var til nýsköpunar.  Covid hraðaði tæknivæðingu og hreyfanleika starfa, það er búið að brjóta niður allar aðgangshindranir sem skapa gríðarleg tækifæri á heimsvísu. Hann fjallaði um stuðningsstyrkjakerfi fyrir nýsköpun, um Hugverkastofu og aukningu nýsköpunar á Íslandi á tímum heimsfaraldurs. Ísland er að nýskapa sig inn í framtíðina það er staðreyndin í dag sagði Tryggvi og ræddi skattaumhverfi og endurgreiðslur fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Hvað er nýsköpun og hvernig virkjum við hana, skilgreinum við hana of þröngt, nýsköpun er um allar grundir og allt í kringum okkur. Samkeppnisforskot Suðurnesja er m.a. nálægðin við stærsta atvinnusvæðið,   landssvæðið á Ásbrú, Keili, framsækin menntastofnun og alþjóða flugvöllur. Jarðvegurinn ykkar er frjór til stórsóknar sagði Tryggvi að lokum.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir og Ásgeir Eiríksson.

  • Ávarp og skýrsla um ávörp (og skýrslur) Frímann Gunnarsson.

Uppistand.

  • Fjórða stoðin – Sigurður Hannesson frá Samtökum Iðnaðarins.

Sækjum tækifærin. Hugverkaiðnaður er orðin fjórða stoðin. Iðnaður er stærsta atvinnugreinin. Ríflega 40 þúsund manns starfa í iðnaði. Til að efla atvinnutækifærin þarf að slíta fjötrana og sækja tækifærin sagði Sigurður.  Tvær af fjórum stoðum útflutnings tilheyra iðnaði. Hugverkaiðnaður hefur nú fest sig í sessi sem fjórða stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins en útflutningstekjur hugverkaiðnaðar námu tæpum 16% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins árið 2020. Þessum árangri er ekki síst aðgerðum á sviði nýsköpunar að þakka, þá sérstaklega hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunarkostnaðar. Að lokum fór Sigurður yfir tækifærin fyrir Suðurnes, hugvit og fjölnýting verðmætastrauma.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Friðjón Einarssonar, Einar Jón Pálsson, Eydís H. Pétursdóttir, Kjartan Már Kjartansson og Ríkharður Ibsen.

Hádegismatur

  • Stafrænt Ísland – Hólmfríður Sigríður Jónsdóttir, verkefnastjóri

Einföldum líf fólks með því að bæta stafræna þjónustu hins opinbera, með því að vinna að þessu erum við að spara tíma fólks, auka hagræði og jákvæð umhverfisáhrif. Markmiðið er að vera í fararbroddi í heiminum í stafrænni þjónustu. Hún ræddi stafræna stefnu og heimsóknir á ísland.is, sameiginlega innviði inn á island.is og kjarnaþjónustu. Að lokum kynnti hún stafrænt pósthólf og sýndi myndband til skýringar.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Áshildur Linnet, Guðmundur Pálsson, Einar Jón Pálsson, Berglind Kristinsdóttir og Friðjón Einarsson.

  • Samband íslenskra sveitarfélaga –  Kjartan Már Kjartansson fulltrúi í stafrænaráði Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Samstarf sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu. Hann fór yfir hlutverk starfræna ráðsins og faghóps um starfræna þróun sveitarfélaganna. Hann sýndi myndband um stafrænt samstarf sveitarfélaga. Sveitarfélögin völdu verkefni til að vinna sameiginlega að sem eru skilgreind í þrjá flokka. Sveitarfélögin eru klár í samstarf.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Margrét Sanders og Eydís H. Pétursdóttir.

  • Rafræn byggingarleyfi, reynslusaga frá Reykjanesbæ – Sveinn Björnsson deildarstjóri bygginga- og skipulagsmála.

Af hverju rafrænt byggingarleyfi. Óhemju mikið magn af pappír og tekur mikið pláss. Hann fór yfir ferlið í stafrænni umbreytingu á sviðinu og stöðuna hjá sviðinu í dag. Ávinningurinn af starfrænni afgreiðslu er tölfræði í rauntíma.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Einar Jón Pálsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét Sanders, Guðmundur Pálsson og Baldur Þórir Guðmundsson.

Kaffihlé

  • Ályktanir og umræður

Ályktun um atvinnumál

Ályktun lögð fram á 45. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 1.-2. október 2021 hvetur ríkisvaldið til að ráðast í aðgerðir til að auðga atvinnulíf á Suðurnesjum.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum er það mesta á landinu eða 9,7% þegar landsmeðaltal er 5,5%. Svæðið er mjög háð Keflavíkurflugvelli og það má sjá í þróun efnahagsmála á Suðurnesjum. Árið 2012 voru ferðaþjónusta, verslun, veitingar og samgöngur um 28% af umsvifum atvinnugreina á Suðurnesjum en árið 2017 var hlutfallið komið í 43%. Atvinnutekjur af ferðaþjónustu á Suðurnesjum voru 37,7% árið 2018 skv. upplýsingum frá Byggðastofnun en landsmeðaltalið var 17,5%.

Fjölga þarf atvinnugreinum á Suðurnesjum en Suðurnesin hafa fundið vel fyrir einsleitu atvinnulífi vegna afleiðinga af völdum Covid. Styðja þarf áfram við uppbyggingu skipa- og flugklasa. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa áhuga á því að vera leiðandi í innleiðingu hringrásarhagkerfisins, en Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur unnið frumskýrslu um innleiðingu hringrásarhagkerfisins og uppbyggingu Sorporkustöðvar í Helguvík en þær skýrslur benda til þess að Suðurnesin geti búið þessum verkefnum góða umgjörð.

Á næstu árum má gera ráð fyrir miklum vexti í fiskeldi á landi. Sjávarútvegurinn hefur verið ein af grunnstoðum atvinnulífs á Suðurnesjum. Það er mikilvægt að styrkja tengsl atvinnulífs og menntunar. Aðalfundur SSS leggur til, að ríkið styrki til framtíðar og með myndarlegum hætti starfsgrundvöll Fisktækniskóla Íslands, með verulegri aukningu fjárveitinga skólans til kennslu og þróunar og vinni jafnframt með sveitarfélögum á Suðurnesjum að því að skapa skólanum þá umgjörð, sem menntun í einni af undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar sæmir.

Sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum leggur til að ríkisvaldið horfi til Suðurnesja þegar kemur að því að fjölga eða flytja ríkisstörf út á land. Bent er á að Njarðvíkurhöfn hentar vel sem heimahöfn skipadeildar Landhelgisgæslu Íslands.

Reykjanesið er lífæð landsins og þar eru fjölmörg atvinnuskapandi verkefni sem hægt er að ráðast í og mikilvægt að ríkið og sveitarfélög rói í sömu átt.

Hjálmar Hallgrímsson lagði fram breytingartillögu. Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Einar Jón Pálsson, Haraldur Helgason og Laufey Erlendsdóttir.

Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

Ályktun um heilbrigðismál

Ályktun lögð fram á 45. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 1.-2. október 2021 hvetur ríkisvaldið til að bæta heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um 21,7% á árunum 2016-2021 en landsmeðaltalið er 10,6%. Því miður hafa fjárveitingar til heilbrigðismála á Suðurnesjum ekki fylgt þeirri þróun.

Sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum bendir á að í Heilbrigðisstefnu ríkisins til ársins 2030, kemur fram að Heilsugæslunni er ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustu við landsmenn samkvæmt lögum. Hún á að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem notendur eiga kost á almennum lækningum, hjúkrun, endurhæfingu, heilsuvernd og forvörnum. Byggja þarf upp þjónustu Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja í öllum þéttbýliskjörnum á Suðurnesjum svo hún geti tekist á við verkefnin sem henni er ætlað að sinna samkvæmt heilbrigðisstefnu ríkisins.

Bent er á að hægt er að byggja upp þjónustu á Suðurnesjum sem gæti létt undir með Landspítalanum eða að færa sérhæfða þjónustu til Suðurnesja og byggja þannig undir starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Jafnframt er kallað eftir stefnumótun til framtíðar í hjúkrunar- og dagdvalarrýmum á Suðurnesjum og landinu öllu og að slík stefna feli í sér reglur um fjölda rýma miðað við íbúafjölda.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson. Fundarstjóri bar

upp ályktunina. Ályktunin samþykkt samhljóða.

  • Tilnefning til stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár

Reykjanesbær:

Aðalmaður: Jóhann Friðrik Friðriksson

Varamaður: Kolbrún Jóna Pétursdóttir

Suðurnesjabær:

Aðalmaður: Laufey Erlendsdóttir

Varamaður: Einar Jón Pálsson

Grindavíkurbær:

Aðalmaður: Hjálmar Hallgrímsson

Varamaður: Guðmundur Pálsson

Sveitarfélagið Vogar:

Aðalmaður: Ingþór Guðmundsson

Varamaður: Birgir Örn Ólafsson

  • Kosning endurskoðunarfyrirtækis.

Samkvæmt útboði sem gert í sumar var endurskoðun bókhalds Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum boðin út til 5 ára. 

Lægstbjóðandi var Deloitte og er því lagt til að Deloitte verði kjörið endurskoðunarfyrirtæki Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða .

  • Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.

Lagt er til að þóknun til stjórnarmanna S.S.S. verði óbreytt en hún er:

Formaður stjórnar 6% af þingfarakaupi eða kr. 77.125,- fyrir hvern fund.

Aðrir stjórnarmenn 4% af þingfarakaupi eða kr. 51.416,- fyrir hvern fund.

Lagt er til að þóknun fyrir aðra fundi en stjórnarfundi verði 3% eða kr. 38.562,-

Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

  • Fundarslit.

Formaður stjórnar Jóhann Friðrik Friðriksson þakkaði stjórn og starfsfólki fyrir gott starf og sleit fundi kl. 14.45.

Fleira ekki gert.

Björk Guðjónsdóttir, fundarritari.