fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

368. fundur SSS 8. desember 1994

 Árið 1994 er fundur haldinn í stjórn Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum fimmtudaginn 8. desember kl. 15.00.

Mætt eru: Hallgrímur Bogason, Sigurður Jónsson, Steindór Sigurðsson, Kristbjörn Albertsson, Óskar Gunnarsson, Jón Gunnarsson, Kristján Gunnarsson, Guðjón Guðmundsson framkv.stj. og Jóhanna M. Einarsdóttir.

Dagskrá:

Í upphafi fundar komu Drífa Sigfúsdóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson en þau er í starfshóp vegna byggingar D-álmu ásamt Jóni Gunnarssyni.
Lögð voru fram drög að samkomulagi um byggingu D-álmu.

Stjórn S.S.S. fagnar því að samkomulag hefur náðst og hvetur sveitarstjórnir til að afgreiða málið jákvætt sem fyrst og skila niðurstöðu sinni eigi síðar en f.h.  fimmtudaginn 15. desember 1994.

1. Fundargerð B.S. frá 27/11 1994.  Lögð fram.

2. Fundargerð undirbúningsnefndar ráðstefnu um æskulýðsmál frá 1/12 1994.  Lögð fram.
Nefndin hefur lokið störfum og stjórn S.S.S. þakkar nefndinni vel unnin störf.

3. Drög að umsögn um frumvarp til laga um Grunnskóla (frh. frá síðasta fundi).  Hallgrímur Bogason, Sigurður Jónsson og Kristbjörn Albertsson lögðu fram drög að umsögn um frumvarið.  Stjórnin samþykkir drögin.

4. Bréf dags. 15/11 1994 frá landbúnaðarnefnd Alþingis ásamt frumvarpi um jarðalög.  Stjórn S.S.S. gerir ekki athugasemd við frumvarpið.

5. Bréf dags. 17/11 1994 frá umhverfisnefnd Alþingis ásamt frumvarpi til laga um umhverfismat.  Stjórn S.S.S. tekur ekki afstöðu til frumvarpsins.

6. Bréf dags. 20/11 1994 frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ásamt drögum að samkomulagi um byggingu D-álmu við Sjúkrahús Suðurnesja.  Vísast til afgreiðslu í upphafi fundar.

7. Bréf dags. 21/11 1994 frá Kristjáni Pálssyni varðandi verkefnið “Frísvæði á Suðurnesjum”.  Í framhaldi af umræðum var framkvæmdastjóra falið að greiða framlagðan reikning Kristjáns Pálssonar og lítur stjórnin á að um fullnaðargreiðslu sé að ræða.  Stjórnin telur rétt að bíða eftir áliti Frísvæðisnefndar áður en ákvörðun um framhald verður tekin.  Samþykkt með 5 atkvæðum, Kristján Gunnarsson á móti.

8. Bréf dags. 24/11 1994 frá  félagsmálaráðuneytinu ásamt fyrirspurn frá Kristni H. Gunnarssyni varðandi kostnað við sameiningu sveitarfélaga.  Framkvæmdastjóra falið að afla svara.

9. Bréf dags. 5/12 1994 frá Guðrúnu Eyjólfsdóttur f.h. atvinnuátaks kvenna þar sem farið er þess á leit við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum að tilnefna nýjan mann í nefnd verkefnisins.
Tilnefnd: María Anna Eiríksdóttir, Garði.

10. Fundur um flutning grunnskólans (framh. frá aðalfundi og síðasta fundi).  Ákveðið að fundurinn verði mánudaginn 12. desember kl. 20.00 (sbr. ákvörðun síðasta fundar).

11. Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
Lagðir voru fram minnispunktar nefndar um atvinnumál á sameiginlegum grunni.

12. Sameiginleg mál.

Varðandi vöntun á fjármagni í jöfnunarsjóð.

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum skorar á Alþingi og ríkisstjórn að nú þegar verði jöfnunarsjóði sveitarfélaga tryggt nægjanlegt fjármagn til að standa við lögbundna greiðslu þjónustuframlaga til sveitarfélaganna í landinu.

Það er óþolandi með öllu að sveitarfélögum sem rétt eiga á þessum framlögum sé tilkynnt einhliða að einungis verði greiddur út 40% hluti framlaganna og óvíst sé hvort og þá hvenær 60% framlaganna verði greiddur sveitarfélögunum.

Það eru einungis smærri sveitarfélögin í landinu sem verða fyrir þessari skerðingu á lögbundnum framlögum sjóðsins og hefur þetta veruleg áhrif á fjárhagsstöðu þeirra.

Stjórnin hvetur einnig Samband íslenskra sveitarfélaga til að beita sér af fullum þunga í þessu máli og beita jafnframt öllum tiltækum ráðum til að tryggja fjárveitingu til þess að jöfnunarsjóðurinn geti staðið við lögboðið  jöfnunarhlutverk sitt.  Ekki verður séð að hægt sé að eiga í viðræðum við ríkisvaldið um samskipti ríkis og sveitarfélaga á sama tíma og það brýtur jafn gróflega og raun ber vitni lög á hluta sveitarfélaga.  Stjórn S.S.S. telur rétt að slíta öllum viðræðum við ríkisvaldið þar til jöfnunarsjóðnum hefur verið gert kleift að standa undir lögboðnum skyldum sínum.

Samþykkt samhljóða.

Ákveðið að senda til forsætisráðherra, fjármálaráðherra, félags-málaráðherra, Alþingis og Sambands ísl. sveitarfélaga.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.40.