fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

32. Aðalfundur SSS 17. október 2009

32. aðalfundur S.S.S. haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Reykjanesbæ
laugardaginn  17.  október 2009

Dagskrá:
Kl. 09:00 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 09:30 2. Fundarsetning: Garðar Vilhjálmsson formaður SSS.
  3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  4. Skýrsla stjórnar: Garðar Vilhjálmsson formaður SSS.
  5. Ársreikningur SSS fyrir árið 2008,
      Anna Birgitta Geirfinnsdóttir.
  6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Kl. 10:00 7. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl 10:15 8. Skýrsla Menningarráðs Suðurnesja. Gísli Sverrir Árnason
    Almenningssamgöngur á Suðurnesjum. Ásmundur Friðriksson
    Fyrirspurnir og umræður
Kl 10:45 9. Málefni fatlaðra – yfirfærsla til sveitarfélaga.
Einar Njálsson, verkefnisstjóri nefndar um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði málefna fatlaðra.
Kl. 11:05  Viðhorf sveitarfélaganna 5
  10. Fyrirspurnir og umræður.

Kl. 12:00     Hádegisverðarhlé.
Kl. 13:00 11.  Ávarp ráðherra sveitarstjórnarmála Kristjáns Möller
Ávarp form. Sambands ísl. sveitarfélaga Halldórs Halldórssonar
Ávörp gesta.
Kl: 13:30 12. Kynning á vinnu lýðræðishóps Sambands íslenskra
sveitarfélaga. Dagur  B. Eggertsson
Kynning á Sóknaráætlun 20/20. – Dagur B. Eggertsson
Kl. 14:10         13. Kynning á vinnu við undirbúnings vaxtarsamnings. Steingerður Hreinsdóttir
Kl. 14:25 14. Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum – framtíðarsýn
   Fyrirspurnir og umræður.
 
Kl:15:20    Kaffihlé.
Kl.15:45 15. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
16. Önnur mál.
17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
18. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
Kl. 17:00 19. Áætluð fundarslit.
Kl. 20:00 Kvöldverður  í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka. – Officeraklúbburinn Ásbrú.
                                   Réttur áskilinn til breytinga á dagskrá
   

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 35  sveitarstjórnarmenn, 11 frá  Reykjanesbæ , 7 frá Grindavík , 7 frá Sandgerði ,  6 frá Sveitarfélaginu Garði , 4 frá Sveitarfélaginu Vogum.

Gestir  og frummælendur á fundinum  voru  Kristján L. Möller samgöngu-og sveitarstjórnarmálaráðherra,  Jóhannes Tómasson samgöngu-og sveitarstjórnarmálaráðuneyti, Björgvin G. Sigurðsson Alþingi, Unnur Brá Konráðsdóttir Alþingi, Sigurður Ingi Jóhannsson Alþingi,  Anna Margrét Guðjónsdóttir Alþingi, Ragnheiður Elín Árnadóttir Alþingi,  Halldór Halldórsson Samb. íslenskra sveitarfélaga,  Einar Njálsson félags og tryggingamálaráðuneyti, Gísli Sv. Árnason Menningarráð Suðurnesja,  Steingerður Hreinsdóttir Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands,  Dagur B. Eggertsson Reykjavíkurborg,  Finnbogi Björnsson D.S.  Magnús H. Guðjónsson H.E.S,  Kristján Ásmundsson F.S. Anna Birgitta Geirfinnssdóttir, Deloitte hf.,  Páll Ketilsson Víkurfréttir

2. Fundarsetning.
Garðar K. Vilhjálmsson, formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um Björk Guðjónsdóttur  og Eystein Jónsson sem fundarstjóra og voru þau sjálfkjörin.
Uppástunga kom um  Sigríði Jónu Jóhannesdóttur sem 1. fundarritara og  Ólaf Thordersen sem 2. fundarritara, vararitarar Sveindís Valdimarsdóttir  og Böðvar Jónsson, voru þau sjálfkjörin.  Lagt var til að Jóhanna M. Einarsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Björk Guðjónsdóttir þakkaði það traust að fela henni og Eysteini Jónssyni stjórn fundarins.

4. Skýrsla stjórnar.
Garðar K. Vilhjálmsson,  formaður SSS flutti skýrslu stjórnar:

“31. aðalfundur SSS var haldinn í grunnskólanum í sveitarfélaginu Garði þann 11. október 2008, í miðjum hrunadansi hins íslenska fjármálageira.
Í stjórn Sambandsins voru kosin þau:
Birgir Ólafsson, Vogum
Oddný Harðardóttir, Garði
Óskar Gunnarsson, Sandgerði
Petrína Baldursdóttir, Grindavík
Garðar K. Vilhjálmsson, Reykjanesbæ, sem gengt hefur formennsku þetta árið.
Oddný Harðardóttir var kjörin á alþingi í vor, og tók Laufey Einarsdóttir við sæti hennar í stjórn SSS í kjölfarið.
Stjórnin hélt 11 fundi á starfsárinu og verður nú stiklað á stóru í þeim helstu málum sem voru á borði stjórnarinnar sl. ár.

Á fyrsta stjórnarfundi sem haldinn var eftir síðasta aðalfund, seinni hluta októbermánaðar, kom stjórnin saman ásamt bæjarstjórum allra sveitarfélaganna. Ljóst var að sveitarfélögin öll sem eitt höfðu orðið fyrir miklu áfalli í kjölfar bankahrunsins. Óhætt er að segja að margur sveitarstjórnarmaðurinn hafi átt andvökunætur vegna ótta um sveitarfélögin myndu tapa miklum fjármunum sem þau áttu inni í bankakerfinu. Sá fjárhagslegi ávinningur sem sveitarfélögunum á Suðurnesjum hafði áskotnast við sölu á hlutafé í Hitaveitu Suðurnesja var í uppnámi. Menn trúðu varlega yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um að allar innistæður á innlánsreikningum í bönkunum væru tryggðar. Miðað við það sem á undan var gengið var tæplegast nokkru hægt að treysta. Fréttir af háskalegum fjárfestingum og gríðarlegu tapi peningamarkaðssjóða bankanna urðu heldur ekki til að létta mönnum geð.
Á fundinum voru ræddar hugmyndir um að setja á stofn Samráðshóp sveitarfélaganna á Suðurnesjum vegna efnahagsástandsins og hvatt til þess að bæjarstjórar sveitarfélaganna hefðu náið samráð sín á milli. Óhætt er að segja að mikil eining og samkennd hafi ríkt meðal sveitarstjórnarmanna á þessum erfiða tíma. Menn studdu hver annan í því sorgarferli sem í raun átti sér stað á þessum tíma. Ég segi fyrir mína hönd að þetta var lærdómsríkt ferli allt saman, og víst er að maðurinn eflist við hverja raun.

Samræming almenningssamgangna á Suðurnesjum var eitt af þeim verkefnum sem var á borði stjórnar seinni hluta síðasta árs. Vegagerðin hafði lýst því yfir að hún vildi koma samningum um sérleyfisakstur á Suðurnesin í hendur Sambandsins. SSS réð Ásmund Friðriksson sem verkefnastjóra í það verkefni að taka við sérleyfissamningnum. Tók formaður ásamt Ásmundi þátt í þríhliða samningaviðræðum við Samgönguráðuneyti og Vegagerðina annars vegar og Kynnisferðir hins vegar, þess efnis að sérleyfissamningurinn flyttist til SSS og Sambandið myndi um leið semja við Kynnisferðir um áframhaldandi akstur á leiðinni. Sá háttur var hafður á til að nota mætti tímann til að koma á nýju skipulagi á almenningssamgöngur á svæðinu. Það er mín skoðun að það hafi verið mikið framfaraskref að fá forræði yfir þessum samningi til Sambandsins og ljóst að verulegar samgöngubætur við höfuðborgarsvæðið hafa átt sér stað.
Til stendur að akstur samkvæmt hinu nýja skipulagi verði boðinn út og líður að því að undirbúa verður það útboð.

Menningarráð Suðurnesja starfaði með öflugum hætti á árinu og er óhætt að segja að þeir fjármunir sem ráðið hefur haft úr að spila hafi nýst einstaklega vel á svæðinu öllu. Það er ekki síst að þakka góðu samstarfi við frábæran verkefnastjóra Gísla Sverri Árnason, en hann mun hér á eftir flytja okkur skýrslu Menningarráðsins.

Markaðsskrifstofa ferðamála á Suðurnesjum var á borði stjórnar SSS og er óhætt að segja að ekki hafi ríkt eining um það milli stjórnarinnar og Ferðamálasamtaka Suðurnesja um með hvaða hætti skyldi til hennar stofna. Það varð úr að Markaðsskrifstofan varð nokkurs konar eingetið afkvæmi Ferðamálasamtakanna, og nýtur það stuðnings bæði frá ríki og sveitarfélögunum í gegnum SSS.”

5. Ársreikningar SSS fyrir árið 2008.
Til máls tók Anna Birgitta Geirfinnsdóttir endurskoðandi sem útskýrði ársreikning SSS fyrir árið 2008.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S.  enginn tók máls og  ársreikningurinn var borinn undir atkvæði og var hann samþykktur samhljóða.

7. Tillögur og ályktanir.
Björk Guðjónsdóttir flutti drög að ályktunum um atvinnumál á Suðurnesjum, um kostnaðarmat á flutningi málefni fatlaðra til sveitarfélaga, um samgöngumál, ályktun um heilbrigðisþjónustu.

8. Skýrslur.

Menningarráð Suðurnesja.
Gísli Sverrir Árnason flutti skýrslu menningarráðs þar sem fram kom m.a. að  úthlutað var til 49 menningarverkefna að upphæð 23 milljónir króna en alls bárust 68 styrkumsóknir og var það talsverð fjölgun frá fyrri úthlutun.

Almenningssamgöngur.
Ásmundur Friðriksson flutti skýrslu um Almenningssamgöngur á Suðurnesjum þar sem hann ræddi m.a. um nýtt samgöngukort sem búið er að dreifa í öll hús á Suðurnesjum og nýjan upplýsingavef. Ásmundur ræddi einnig um fyrirhugaða skoðanakönnun  sem stendur til að gera til að fá glögga mynd af viðhorfum núverandi og tilvonandi viðskiptavinum.

Eysteinn Jónsson tók við stjórn fundarins.

Fyrirspurnir og umræður
Til máls tóku  Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Róbert Ragnarsson, Sveindís Valdimarsdóttir, Þorvaldur Örn Árnason og Petrína Baldursdóttir.

9.  Málefni fatlaðra – yfirfærsla til sveitarfélaganna.

Einar Njálsson verkefnisstjóri nefndar um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði málefna fatlaðra ræddi m.a. um aðdraganda og rök fyrir verkefnaflutningi frá ríki  til sveitarfélaganna.  Einar ræddi einnig um  stjórnun verkefnisins,  aðferðarfræði og þjónustuþætti sem reiknað er með að flytjist yfir til sveitarfélaganna.

Viðhorf sveitarfélaganna 5.
Róbert Ragnarsson talaði fyrir hönd sveitarfélaganna, Garðs, Sandgerðis og Voga  en þessi sveitarfélög 3 reka saman félagsþjónustu saman. Lagði hann m.a. til að hafin yrði stefnumótunarvinna á vegum sveitarfélaganna í þessum málaflokki.
Guðmundur Pálsson talaði fyrir hönd Grindavíkur og sagði m.a. að Grindvíkingar vildu vera  svolítið sjálfir með þessa þjónustu en vilja að SSS leiði stefnumótunarvinnuna.
Árni Sigfússon talaði fyrir hönd Reykjanesbæjar og sagði jákvætt að samþætta þessa þjónustu og að hlutfall fatlaðra væri hærra hér en fjárframlög lægri.

Hádegisverðarhlé.

11. Ávarp frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála.
Kristján Möller ráðherra sveitarstjórnarmála ræddi  m.a. um heildarendurskoðun á sveitastjórnarlögunum.  Einnig að sameiningarkostir verði skoðaðir á hverju svæði fyrir sig og að raunhæfar tillögur að sameiningu sveitarfélaganna liggi fyrir þegar líður á veturinn.

Ávarp form Sambands ísl. sveitarfélaga
Halldór Halldórsson formaður Sambands ísl. sveitarfélaga sem sagði m.a. að  sveitarfélögin væru að fara í erfiða fjárhagsáætlanagerð.  Samstarf hefur aukist mikið milli Sambands ísl. sveitarfélaga og samgönguráðuneytisins á þessu ári og kom það í kjölfar hrunsins og mætti auka þetta samstarf enn meira.

Ávörp gesta.
Björgvin G Sigurðsson 1. þingmaður Suðurkjördæmis flutti kveðjur þingmanna,  hann sagði að  samband milli alþingismanna og sveitarstjórnarmanna væri mest á sviði atvinnumála. Hann sagði einnig að úrskurður umhverfisráðherra sem kveðinn var upp nýverið, væri mikil vonbrigði. 

12. Kynning á vinnu lýðræðishóps Sambands ísl. sveitarfélaga.
Dagur B. Eggertsson ræddi þar m.a. sveitarfélögin sem lýðræðisvettvang, um siðareglur sem sveitarfélögin setji sér, persónukjör i sveitarstjórnum. 

Kynning á sóknaráætlun 20/20
Fram kom í máli Dags B. Eggertssonar að með  sóknaráætlun er meðal annars ætlað að draga fram styrkleika og sóknarfæri lands og þjóðar. Mótaðar verði áherslur sem tryggja að Ísland verði 1 af 10 samkeppnishæfustu löndum í heimi árið 2020.

13.  Kynning á vinnu við undirbúning vaxtarsamnings.
Steingerður Hreinsdóttir kynnti vinnu við undirbúning vaxtarsamnings og sagði m.a. frá reynslu sunnlendinga af vaxtarsamningum.

14.  Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum – framtíðarsýn.

Böðvar Jónsson talaði fyrir hönd Reykjanesbæjar.  Hann sagði að stóru samstarfsverkefnin Kalka, D.S., og B.S.  væru mjög umdeild.  Sveitarfélögin væru ekki öll að taka þátt í þessum verkefnum,  B.S. er verkefni 3 sveitarfélaga og D.S. er verkefni 4 sveitarfélaga.  Sveitarfélögin ættu ekki að standa í rekstri heldur ættu þau að vera í höndum rekstraraðila sem væru betur til þess fallnir.

Petrína Baldursdóttir talaði fyrir hönd Grindavíkur og sagði meðal annars að SSS væri samstarf til 30 ára og verkefni til framtíðar.  Að verkefni SSS væru m.a. hagsmunagæsla og auka samráð milli sveitarfélaganna. Grindvíkingar væru tilbúnir í gott samstarf.

Óskar Gunnarsson talaði fyrir hönd Sandgerðis og sagði meðal annars að öflugt samstarf skipti sköpum í samskiptum við ríkisvaldið.  Sveitarfélögin hefðu verið í góðu samstarfi með mörg verkefni en það gæti verið að sveitarfélögin þyrftu að skoða nýjar leiðir.

Birgir Örn Ólafsson  talaði fyrir hönd Sveitarfélagsins Voga og sagði m.a. að samstarfið og skipulag þess hefði breyst.  SSS hefði  ekki verið þessi sameiginlegi talsmaður hin síðari ár eins og á árum áður. Hann taldi að tími væri komin á endurskoðun  og lagði fram eftirfarandi tillögu:

„Lagt er til að stjórn SSS skipi vinnuhóp sem kortleggi allt samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum, kynni sér mismunandi samstarfsform og leggi síðan fram hugmyndir til umræðu á málþingi um samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum.  Vinnuhópurinn fái heimild til að sækja sér  ráðgjöf, jafnt hjá ráðgjafarfyrirtækjum og hjá háskólasamfélaginu.

Vinnuhópurinn vinni síðan úr þeim tillögum og hugmyndum sem fram koma á málþinginu og í öðrum gögnum sem hópurinn hefur safnað og skili tillögum til stjórnar SSS og/eða bæjarstjórna allra sveitarfélaganna fyrir 1. mars 2010.“

Tillagan samþykkt samhljóða.

Laufey Erlendsdóttir talaði fyrir hönd Sveitarfélagsins Garðs og sagðist vera hlynnt samstarfi og það væri til hagsbóta fyrir sveitarfélögin. Hún taldi að kjörnir fulltrúar ættu að sitja í stjórnum og ráðum á vegum SSS.

Til máls tóku  Einar Jón Pálsson, Róbert Ragnarsson, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Ólafur Þór Ólafsson,  Árni Sigfússon, Hörður Guðbrandsson, Sveindís Valdimarsdóttir, Þorsteinn Erlingsson, Garðar K. Vilhjálmsson
 

Kaffihlé

Björk Guðjónsdóttir tók við stjórn fundarins.

15.  Ályktanir – umræður og afgreiðslur.

Ályktun um atvinnumál á Suðurnesjum

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ 17. október 2009, skorar á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja eðlilegan framgang atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum og standi vörð um fiskveiðar og vinnslu.  Aðalfundurinn lýsir áhyggjum sínum á breytingum sem gætu sett atvinnugreinina í fullkomna óvissu.
Aðalfundurinn krefst þess að ríkisstjórnin afturkalli nú þegar ákvörðun umhverfisráðherra sem tefur vinnu við raforkulagnir um Suðurnes. Uppbygging atvinnulífsins á Suðurnesjum er háð línulögnum og öll töf á lagningu þeirra er atlaga að uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.
Mesta atvinnuleysi á landinu er á Suðurnesjum, auk þess sem meðaltekjur íbúa á svæðinu eru undir landsmeðaltali. Þörfin fyrir uppbyggingu og ný, vel launuð störf er því hrópandi. Fundurinn krefst þess að ríkisstjórn og Alþingi leggist á árarnar með sveitarstjórnarmönnum, verkalýðsfélögum, atvinnurekendum og íbúum á svæðinu og stuðli að því að ný atvinnutækifæri líti dagsins ljós.
Ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar vinna með Suðurnesjamönnum, geta þúsundir manna fengið atvinnu að nýju.

Til máls tóku Þorvaldur Örn Árnason, Ásmundur Friðriksson, Böðvar Jónsson, Ólafur Þór Ólafsson, Eysteinn Jónsson, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Þorsteinn Erlingsson, Einar Jón Pálsson, Eysteinn Eyjólfsson, Hörður Guðbrandsson, Garðar K. Vilhjálmsson og  Sveindís Valdimarsdóttir.

Ályktun um atvinnumál á Suðurnesjum samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um kostnaðarmat á flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ 17. október 2009, skorar á ríkisstjórn Íslands og félagsmálaráðherra að framkvæma heildstætt mat á þjónustuþörf fyrir fatlaða á Suðurnesjum áður en kostnaðarmat vegna flutnings málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga fer fram.
Ljóst er að framlög ríkisins til málefna fatlaðra á Suðurnesjum hafa verið í hrópandi ósamræmi við framlög til annarra svæða á landinu.  Framlög til Reykjaness á hvern íbúa eru 24% lægri en landsmeðaltal.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fer fram á að kostnaðarmatið verði gert á raunverulegum forsendum, þ.e. samkvæmt þjónustuþörfinni og lögbundnum rétti fatlaðra en miðist ekki við þau framlög sem veitt hefur verið til svæðisins og enn síður við þann sára niðurskurð sem við blasir í fjárlögum næsta árs.

Til máls tók Hólmfríður Skarphéðinsdóttir.

Ályktun um kostnaðarmat á flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga samþykkt samhljóða.

Ályktun um samgöngumál.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ þann 17. október 2009, leggur áherslu á að ríkisstjórn og samgönguráðherra standi við gefin loforð um að ljúka við gerð Suðurstrandarvegar. Minnir fundurinn á að ríkisstjórn hafi áður gefið loforð um verkefnið og lok þess. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikilvæg vegtengingin er Suðurkjördæmi með tilliti til atvinnusvæða  og ferðaþjónustu.
Einnig telur fundurinn mikilvægt að lokið verði við breikkun Grindavíkurvegar og Sandgerðisvegar og hafist verði handa við breikkun og endurbætur á Garðskagavegi og Vatnleysustrandarvegi.  Minnt er á mikilvægi þess að lýsa upp stofnvegi á Suðurnesjum. Aukning umferðar á vegunum kallar á lausn hið fyrsta.
Skorar fundurinn á yfirvöld að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum að flugstöð Leifs Eiríkssonar og frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar og að farið verði í uppbyggingu á reiðvegum og hjólreiðastígum á svæðinu. Unnið verði að því að byggja mislæg gatnamót og huga að vegtengingum við nýja byggð á Ásbrú.  Einnig bendir fundurinn á mikilvægi þess að hugað verði að vegi sem nær frá Fitjum í Reykjanesbæ til Grindavíkur. Vegurinn mun stytta leiðina á milli Grindavíkur og Reykjanesbæjar og tengja atvinnusvæðin enn betur saman.

Til máls tóku Hólmfríður Skarphéðinsdóttir og Einar Jón Pálsson.

Ályktun um samgöngumál samþykkt samhljóða.

Ályktun um heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ 17. október 2009, skorar á þingmenn kjördæmisins og heilbrigðisráðherra að tryggja jafnræði í heilbrigðisþjónustu í landinu. Í Garði, Vogum og Sandgerði hefur heilsugæslustöðvum verið lokað, en í þeim sveitarfélögum búa samtals um 4.500 manns. Sambærilega stór sveitarfélög búa öll við heilsugæslu í heimabyggð.  Íbúar á Suðurnesjum eiga rétt á því að búa við jafngott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og önnur landssvæði.
Gríðarleg fjölgun íbúa hefur verið á Suðurnesjum á síðustu árum og opinber þjónusta á borð við heilsugæslu og sjúkrahússtarfsemi verður að taka mið af slíkum samfélagsbreytingum. Þrátt fyrir nauðsynlega hagræðingu í ljósi efnahagsaðstæðna, þá er mikilvægt að sá niðurskurður sem átt hefur sér stað og mun eiga sér stað verði ekki til þess að draga úr grunnþjónustu.  Fjárveitingar til HSS  hafa árum saman verið mun lægri í krónum talið en annars staðar á landinu og ekki í takt við íbúafjölgun á svæðinu.   Það er því krafa aðalfundarins að stofnunin fái nauðsynlegt fjármagn til reksturs áranna 2009 og 2010 og einnig til framtíðar, svo tryggja megi góða heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.

Ályktun um heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum samþykkt samhljóða.

16. Önnur mál.
Óskar Gunnarsson tók til máls og þakkaði Guðjóni Guðmundssyni framkvæmdastjóra samstarfið á undanförnum árum en Guðjón lætur nú af störfum eftir 21 ár.
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri tók til máls og þakkaði sveitastjórnunum gott samstarf og starfsfólki HES og skrifstofu SSS einnig mjög gott samstarf.  

17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær
  Aðalmaður: Garðar K. Vilhjálmsson
  Varamaður: Guðný Ester Aðalsteinsdóttir

Grindavíkurbær:
  Aðalmaður: Petrína Baldursdóttir
  Varamaður: Gunnar Már Gunnarsson

Sandgerðisbær:
  Aðalmaður: Óskar Gunnarsson 
  Varamaður: Sigurður   Valur Ásbjarnarson

Sveitarfélagið Garður:
  Aðalmaður: Laufey Erlendsdóttir
  Varamaður: Oddný Harðardóttir

Sveitarfélagið Vogar
  Aðalmaður; Birgir Örn Ólafsson
  Varamaður: Róbert Ragnarsson

18. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.

Aðalmenn Hjörtur Zakaríasson
  Dóróthea Jónsdóttir

Varamenn Sigurbjörg Eiríksdóttir
  Brynja Kristjánsdóttir

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S.  Garðari K. Vilhjálmssyni orðið sem þakkaði fundarmönnum fundarsetuna.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.40

    

Jóhanna M. Einarsdóttir
     fundarskrifari.